Markaðsherferðin „Fishmas

Markaðsherferðin „Fishmas" hafin í Frakklandi

15 september 2021

Núna á dögunum hófst í Frakklandi sameiginleg markaðssetning íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja undir yfirskriftinni „Fishmas“. Herferðin er framhald af herferð sem hófst í Bretlandi síðasta haust og skilaði góðum árangri.  Að baki Fishmas er markaðsverkefnið Seafood from Iceland sem samanstendur af um 30 fyrirtækjum í veiðum, vinnslu, sölu og þjónustu við sjávarútveginn, ásamt Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) og Íslandsstofu.

Markmiðið með herferðinni er að auka útflutningsverðmæti sjávarafurða með því að styrkja vitund og hafa áhrif á viðhorf neytenda til íslenskra sjávarafurða. Skilgreindur var markhópur sem hlotið hefur vinnuheitið „stálpað fjölskyldufólk“ og er skilaboðunum beint markvisst að þeim hópi í gegnum birtingar á samfélagsmiðlum.  Sérstök áhersla er lögð á einstök gæði íslenska fisksins og Frakkar hvattir til að elda íslenskan fisk a.m.k. tvisvar í viku. Samstarf verður við fjölmarga franska áhrifavalda sem munu fá ferskan þorsk sendan heim og elda úr honum girnilegar uppskriftir og birta á sínum samfélagsmiðlum. Fjölmörg ný Fishmas uppskriftamyndbönd er að finna á vefsíðu herferðarinnar https://fishmas.fr

Útflutningsverðmæti íslenskra þorskafurða hæst í Frakklandi

Frakkland er mjög mikilvægur markaður fyrir íslenska útflytjendur. Hann er í dag næst stærsti markaðurinn fyrir íslenskar sjávarafurðir en útflutningsverðmæti árið 2020 námu samtals 36,4 ma. kr. Þorskur er sú tegund sem skiptir íslenska útflytjendur langmestu máli en 78% af útflutningsverðmætum til Frakklands var þorskur og þar á eftir koma: ýsa (5%), karfi (5%), ufsi (4%) og steinbítur (3%). Ef eingöngu er horft á útflutningsverðmæti þorskafurða er Frakkland í 1. sæti með 28,3 ma. kr. sem gerir 21% af heildarútflutningsverðmætum Íslands. Mikilvægi Frakklands í viðskiptum með þorsk hefur vaxið umtalsvert á undanförnum árum, en til samanburðar má nefna að útflutningsverðmæti voru einungis 5% árið 2007. Þegar eingöngu er horft á ferskan þorsk má sjá að hlutur Frakklands er enn meira afgerandi því árið 2020  fór 44% útflutningsverðmæta á ferskum þorski til Frakklands. Þorskur er vinsæl fisktegund hjá Frökkum, kemur næst á eftir laxi í neyslu og vöruna er að finna jafnt í verslunarkeðjum sem og á veitingastöðum.

Fishmas veisla með íslenskum gæðafiski

Markaðsherferðin var formlega sett föstudaginn 10. september sl. þar sem Fishmas-veislu var slegið upp í París í samstarfi við sendiráð Íslands ytra. Viðburðurinn var haldinn í sendiherrabústaðnum og voru boðsgestir: fjölmiðlafólk, áhrifavaldar og fulltrúar frá kaupendum á franska markaðnum. Unnur Orradóttir Ramette, sendiherra Íslands í París, bauð fólk velkomið og ræddi mikilvægi franska markaðarins fyrir íslenskan sjávarútveg í ávarpi sínu. Lea Gestsdóttir Gayet fagstjóri almannatengsla hjá Íslandsstofu kynnti Fishmas-herferðina og kom inn á mikilvægi þess að fá aðila á franska markaðnum til kynningarsamstarfs. Hápunktur viðburðarins í París var sýnikennsla sem margverðlaunaður matreiðslumeistari, Viktor Örn Andrésson, stóð fyrir. Viktor Örn eldaði fjóra ljúffenga rétti úr íslenskum gæðafiski og tóku gestir virkan þátt í eldamennskunni og áttu góða og notalega samverustund.

Auka þarf vitund neytenda í Frakklandi á íslenskum uppruna sjávarafurða

Staða Íslands á franska markaðnum er sterk, sérstaklega þegar horft er á framboð af ferskum þorskflökum og hnökkum. Innflytjendur og dreifingaraðilar í Frakklandi þekkja vel íslenska fiskinn, gæði hans og stöðugt framboð. Annað á hins vegar við um neytendur, því sjaldnast er að finna upprunamerkingar á umbúðum í smásöluverslunum eða á matseðlum veitingastaða.

Með sameiginlegu markaðsstarfi eins og Seafood from Iceland verkefninu mun rödd Íslands heyrast víðar. Markmiðið er að íslenskum sjávarafurðum verði gert hærra undir höfði á franska markaðinum, sem vonir standa til að skili sér í auknum mæli til neytenda í Frakklandi. Til að ná því markmiði þurfa allir að vinna saman: Íslenskir framleiðendur og útflytjendur, Íslandsstofa, SFS og síðast en ekki síst innflytjendur og dreifingaraðilar á markaðnum. Aðeins þannig eigum við möguleika.