Staðlar

Staðlar

Ábyrgar fiskveiðar ses (ÁF) eiga tvo staðla sem notaðir eru til úttektar af vottunaraðila:

1. Staðall útgafa 2.1 fyrir ábyrga fiskveiðistjórnun

2. Staðall fyrir vottun á rekjanleika (á íslensku, á ensku)

Staðlarnir byggja á siðareglum FAO um ábyrgar fiskveiðar og leiðbeiningum frá FAO um umhverfismerkingar fisks og fiskafurða úr sjávarafla. Þeir byggja á núgildandi alþjóðasamningum sem fjalla um fiskveiðar, einkum hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna frá 1982, samningi um verndun deilistofna og víðförulla fiskistofna og stjórnun veiða úr þeim frá 1995 og tengdum skjölum.

Báðir staðlar ÁF hafa hlotið formlega alþjóðlega viðurkennda ISO faggildingu skv. ISO/IEC 17065/2012. Úttekt vegna faggildingarinnar var gerð af írsku faggildingarstofunni INAB, Irish National Accreditation Board, sem er aðili að Alþjóðasamtökum faggildingaraðila (IAF). Faggilding af þessu tagi er alþjóðleg viðurkenning og staðfestir að um óháða vottun er að ræða þar sem gegnsæi og trúverðugleiki er í hávegum haft.

Tækninefnd ÁF, sem í sitja fulltrúar frá helstu hagsmunaaðilum, ber ábyrgð á ritun, útgáfu og endurskoðun staðla vottunarverkefnisins sem lýtur að bæði fiskveiðistjórnun og rekjanleika.