Íslendingar hafa stundað fiskveiðar frá upphafi byggðar í landinu, en einhverjar gjöfulustu veiðislóðir í Norður-Atlantshafi eru í íslenskri lögsögu. Sjávarútvegur á Íslandi hefur vaxið og dafnað og í dag eru Íslendingar í fararbroddi á mörgum sviðum í sjávarútvegi og tengdum greinum.
Útflutningsverðmæti sjávarafurða er um 40% af tekjum af vöruútflutningi og hefur verðmætið aukist þrátt fyrir minnkandi veiði. Mikil áhersla er á nýsköpun og mikla nýtingu aflans sem hefur getið af sér ýmsar nýjungar og aukningu verðmæta.
Aukin vitund almennings um umhverfismál eflir þá kröfu að fiskveiðum sé stjórnað með ábyrgum hætti. Kaupendur sjávarafurða og neytendur um allan heim leggja áherslu á að sjálfbær nýting sé höfð að leiðarljósi. Löng hefð er fyrir stjórnun fiskveiða á Íslandi og hefur stjórnkerfi fiskveiða verið í mótun um áratuga skeið með það að leiðarljósi að fiskveiðar séu í senn hagkvæmar og sjálfbærar með tilliti til nýtingar og viðhalds auðlinda.Á Íslandi hefur verið byggt upp fiskveiðistjórnunarkerfi til að tryggja ábyrgar fiskveiðar sem fela í sér viðhald fiskistofna og góða umgengni um vistkerfi hafsins. Stjórnun fiskveiða á Íslandi byggist í aðalatriðum á víðtækum rannsóknum á fiskistofnum og vistkerfi hafsins, ákvörðunum um veiðar og afla á grundvelli vísindalegrar ráðgjafar og öflugu eftirliti með veiðum og heildarafla. Þetta eru þær meginstoðir íslenskrar fiskveiðistjórnunar sem ætlað er að tryggja ábyrgar fiskveiðar og viðhald auðlinda hafsins til framtíðar.