Saltfiskréttur Soniu sló í gegn
Þann 17. nóvember sl. fór fram glæsilegur viðburður í kokkaskólanum Escola do Turismo de Portugal í Porto á vegum markaðsverkefnisins Bacalhau da Islandia. Þar kepptu matreiðslunemar frá fjórum skólum í Norður-Portúgal um það hver eldar besta fiskréttinn úr íslenskum saltfiski. Íslenskur saltfiskur hefur löngum verið hátt skrifaður á þessu svæði og er meðal annars vinsæll jólamatur. Verkefnið var unnið með aðkomu skólayfirvalda á svæðinu og Estrella Damm í Portúgal.
Matreiðslumaðurinn Pedro Pena Bastos frá veitingastaðnum Cura á Four Seasons Ritz í Lissabon vann með Bacalhau da Islandia að því að kynna keppnina fyrir nemendum og veita þeim tilsögn, bæði í formi kennslumyndbanda og í eigin persónu. Hver skóli fyrir sig hélt svo undankeppni í aðdragandanum þar sem þeirra fulltrúi í úrslitakeppnina var valinn.
Dómnefnd var skipuð af áðurnefndum Pedro, Rosana Alves blaðamanni frá Food and Travel Portugal og Nuno Araújo, sem er framkvæmdastjóri Grupeixe, sem í eigu VSV í Vestmannaeyjum, auk Kristins Björnssonar verkefnastjóra hjá Íslandsstofu sem var fulltrúi Bacalhau da Islandia. Keppninni lauk með hádegisverði þar sem sigurvegari var krýndur, en þar voru viðstaddir meðal annars innflytjendur íslensks saltfisks, blaðamenn, kokkar og veitingahúsaeigendur. “Þetta er frábært tækifæri fyrir nemendurna, því saltfiskurinn er algerlega samofinn okkar matarhefð.” sagði Paolo Morais, skólastjóri, að keppni lokinni.
Sigurvegari í keppninni var Sonia Vilas de Sa en hún eldaði rétt sem fékk innblástur úr portúgalskri jólahefð og notaði til þess meðal annars saltfiskhnakka, sundmaga og hrogn. Portúgalir eru lunknir við það að nýta alla hluta þorsksins og margt sem má læra ef þeim þar. Sonia mun á vordögum heimsækja Ísland með kennara sínum og kynnast íslenska saltfiskinum enn betur og upprunalandinu í boði Bacalhau da Islandia. Á sama tíma koma sigurvegarar, í samskonar viðburðum, frá Spáni og Ítalíu, en þær keppnir fara fram á nýju ári.
Hér að neðan má sjá nokkrar myndir frá viðburðinum.