Vörumerkið Iceland Responsible Fisheries er í eigu Ábyrgra fiskveiða ses. og er ætlað til auðkenningar á vörum og þjónustu aðila í virðiskeðju íslenskra sjávarafurða skv. 5. gr. reglna um notkun merkisins. Tilgangur merkisins er að tryggja kaupendum og neytendum upplýsingar um að íslenskar sjávarafurðir eigi uppruna sinn í ábyrgum fiskveiðum Íslendinga. Hér er hægt að hlaða niður pdf skjali með reglunum.
(Rules on the use of the Responsible Fisheries Iceland logo – without certification)
1. gr. Markmið
Vörumerkið er í eigu Ábyrgra fiskveiða ses.
Vörumerkið er ætlað til auðkenningar á vörum og þjónustu aðila skv. 5. gr. Tilgangur merkisins er að tryggja kaupendum og neytendum upplýsingar um að íslenskar sjávarafurðir eigi uppruna sinn í ábyrgum fiskveiðum Íslendinga.
2. gr. Deilistofnar
Vörumerkið má nota á afla íslenskra fiskiskipa úr deilistofnum sem eru að hluta til innan íslenskrar lögsögu og lúta viðurkenndri heildarstjórnun.
3. gr. Íslenska efnahagslögsagan
Vörumerkið má nota á íslenskar sjávarafurðir sem unnar eru úr afla í íslenskri lögsögu úr stofnum, sem ekki teljast deilistofnar, hvort sem er innan aflamarkskerfis eða utan aflamarks.
4. gr. Afurðir unnar utan Íslands
Um sjávarafurðir skv. 2. gr. og 3. gr., sem ekki eru unnar á Íslandi, gilda sömu reglur um notkun merkisins og séu þær unnar hjá íslenskum framleiðendum. Í þeim tilfellum bera kaupendur sjávarafurða ábyrgð á því að eftir reglum sé farið með traustu rekjanleikakerfi.
5. gr. Notendur merkisins
Stjórn Ábyrgra fiskveiða ses. veitir heimild til að nota vörumerkið til auðkenningar á vörum sínum eða þjónustu að uppfylltum þeim skilyrðum sem koma fram í þessum reglum.
Útgerðaraðilar eða framleiðendur sem hafa gilt veiðileyfi og/eða vinnsluleyfi, eftir því sem við á, útgefið af íslenskum stjórnvöldum er heimilt að nota merkið.
Kaupendur og framleiðendur utan Íslands, sem hafa tilskilin leyfi þar til bærra stjórnvalda, til að áframvinna eða umpakka íslenskum sjávarafurðum í neytendapakkningar eða í pakkningar fyrir heildsala er heimilt nota merkið á þær vörur, enda sé sýnt fram á traust rekjanleikakerfi.
Stjórn Ábyrgra fiskveiða ses. ákveður á hvaða fisktegundir og sjávarafurðir megi nota merkið sbr. 2. og 3. gr.
6. gr Umsókn og skráning
Sækja verður um heimild til notkunar vörumerkisins til Ábyrgra fiskveiða ses. Uppfylli umsækjandi skilyrði 5. gr. reglna þessara, skal félagið Ábyrgar fiskveiðar veita honum notkunarheimild. Í umsókn skal tilgreina sérstaklega þá aðila sem koma til með að nota merkið, bæði fyrir starfsemi umsækjenda og erlendra aðila eftir því sem við á. Tilkynna skal umsækjanda skriflega eða í tölvupósti um heimild til notkunar og hvaða aðilar séu skráðir notendur merkisins. Afgreiða skal umsókn eins fljótt og kostur er. Sé fyrirséð að afgreiðsla tefjist lengur en sjö virka daga, skal upplýsa umsækjanda um hvenær umsókn verði afgreidd. Umsækjendur greiða skráningargjald að upphæð kr. 90.000 sem ætlað er að standa straum af kostnaði við leyfisveitingu.
Ábyrgar fiskveiðar ses. skal halda lista yfir skráða notendur merkisins. Listinn um skráða notendur merkisins skal vera aðgengilegur hverjum þeim sem þess óskar.
7. gr Upphaf notkunar merkis
Áður en notkun á vörumerkinu hefst skal alltaf senda endanlegt útlit á viðkomandi miðli til Ábyrgra fiskveiða ses. til samþykktar. Notkun merkisins má ekki hefjast fyrr en samþykki liggur fyrir.
8. gr. Leiðbeiningar um notkun merkisins
Vörumerkið skal nota í samræmi við leiðbeiningar um notkun merkisins sem staðfestar eru af stjórn Ábyrgra fiskveiða ses. Í leiðbeiningunum er m.a. tekið fram hvernig nota má merkið í samhengi við önnur merki, hvernig fara skuli með stærðarhlutföll í merkinu við ólíka notkun, hvernig merkið skuli notað í samhengi við texta, hvar merkið skuli staðsett á pakkningum eða auglýsingum og svo framvegis.
Umbúðir þær sem vörumerkið er notað á mega ekki hafa aðrar merkingar sem geta gefið misvísandi upplýsingar um uppruna vörunnar. Sama gildir um aðra framsetningu merkisins á öðrum miðlum.
Komi upp vafi um rétta notkun skal Ábyrgar fiskveiðar ses. skera úr um hvernig rétt sé að nota merkið.
9. gr. Markaðssvæði og rekjanleiki
Vörumerkið má nota á öllum mörkuðum fyrir sjávarafurðir.
Notendur merkisins verða að geta sýnt fram á viðurkennt rekjanleikakerfi sem tryggir að vara merkt vörumerkinu um ábyrgar fiskveiðar sé í raun unnin úr viðeigandi afla sbr. 2. og 3. gr. hér að ofan.
10. gr. Brottfall heimildar
Missi aðili veiði- eða vinnsluleyfi lengur en í 12 vikur útgefið af íslenskum stjórnvöldum, þá fellur niður heimild viðkomandi til notkunar merkisins.
Hafi stjórn Ábyrgra fiskveiða ses. tekið ákvörðun um að heimila öðrum aðila notkun merkisins en greinir í 5. gr. og hann uppfyllir ekki lengur skilyrði þessara reglna er stjórninni heimilt að fella niður rétt hans til að nota vörumerkið. Tilkynna skal viðkomandi aðila um slíka ákvörðun.
11. gr. Notkun merkis hætt
Taki aðili sem notað hefur vörumerkið ákvörðun um að hætta notkun merkisins skal hann tilkynna slíkt til Ábyrgra fiskveiða ses. Í kjölfar slíkrar tilkynningar skal Ábyrgar fiskveiðar ses. taka viðkomandi aðila af listanum um skráða notendur merkisins.
12. gr. Ábyrgð og eftirlit með notkun
Skráðir notendur bera sjálfir ábyrgð á því að viðhafa rétta notkun merkisins.
Ábyrgar fiskveiðar ses. getur alltaf kallað eftir sýnishornum og upplýsingum um notkun merkisins að kostnaðarlausu og er notendum skylt að láta þær upplýsingar af hendi.
Komi upp rökstuddur grunur um óréttmæta notkun ber notendum eða starfsmönnum viðkomandi að tilkynna Ábyrgum fiskveiðum ses. um slíkt.
Verði aðili uppvís að ólögmætri notkun merkisins og bæti hann ekki úr innan þeirra tímamarka sem stjórn Ábyrgra fiskveiða ses. setur honum, fyrirgerir hann öllum rétti sínum til frekari notkunar á vörumerkinu í tengslum við framleiðslu sína og aðra starfsemi.
13. gr. Varnarþing og málarekstur
Stjórn Ábyrgra fiskveiða ses. er heimilt að reka mál og krefjast skaðabóta vegna brota á notkun merkisins í samræmi við ákvæði þar að lútandi í lögum um vörumerki nr. 45/1997. Ágreiningsmál og dómsmál skv. reglum þessum verða haldin við Héraðsdóm Reykjavíkur.
14 . gr. Breytingar á reglum þessum
Stjórn Ábyrgra fiskveiða ses. áskilur sér rétt til breytinga á reglum þessum án fyrirvara.
Reglur þessar eru gefnar út í mars 2011 (enduskoðun á upphaflegri útgáfu).